154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari tillögu sem fjallar um mál sem er grafalvarlegt á marga vegu. Það er ákaflega mikilvægt að við Íslendingar gerum það sem í okkar valdi stendur til að hjálpa Úkraínumönnum, Úkraínufólki, í þeirri miklu og erfiðu baráttu sem þar stendur yfir. Þetta er ekki bara barátta Úkraínu fyrir frelsi sínu og fullveldi, þetta er líka barátta um gildi í vestrænni samvinnu og um leið barátta sem skiptir okkur miklu máli hér á Íslandi. Ég held að full ástæða sé til að taka undir það sem sagt er í greinargerðinni, að á þeim rúmlega tveimur árum sem liðin eru frá upphafi allsherjarinnrásar Rússlands hefur öryggisumhverfi Íslands stökkbreyst. Tekist er á um grundvallarþætti alþjóðakerfisins, virðingu við alþjóðalög og mannréttindi. Það á mjög í vök að verjast að farið sé að alþjóðalögum og mannréttindi séu virt. Þetta er því á alla enda og kanta mjög mikilvægt mál.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fjalla efnislega um þá þætti sem þarna eru lagðir til en sýnist að þar sé gripið á margvíslegum málum þar sem við getum virkilega lagt okkar af mörkum. En auðvitað er það þannig að þetta gerum við fyrst og fremst í samvinnu við önnur ríki eðli málsins samkvæmt. Það er líka mjög gleðilegt að sjá að hér er sérstaklega fjallað um það að verið sé að styðja við sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúa landsins, sem er mjög mikilvægt. Það er líka mjög mikilvægt að hér er verið að lýsa pólitískum stuðningi íslenskra stjórnvalda við málstað Úkraínu og reyna að verja þjóðina gegn því óréttlæti sem hún verður fyrir af hendi Rússa og þarf ekki að hafa mjög mörg orð um það.

Það er líka mikilvægt — og nú styðst ég bara við það sem segir í greinargerðinni — að Ísland hefur lýst yfir stuðningi við framtíðarsýn úkraínskra stjórnvalda um að tilheyra evrópsku lýðræðissamfélagi, sem endurspeglast í umsókn þeirra um aðild að Evrópusambandinu, þar með einnig Evrópska efnahagssvæðinu og Atlantshafsbandalaginu. Sú vegferð felur í sér víðtækar umbætur á stjórnarháttum í landinu, aðgerðir gegn spillingu, eflingu mannréttinda og kynjajafnréttis og stuðning við að halda reglur réttarríkisins í heiðri.

Þetta er mjög mikilvægt. Við erum með þessum aðgerðum okkar m.a. að styðja Úkraínu til þessarar þátttöku í samvinnu sem er fyrst og fremst á forræði Evrópusambandsins og það er vel. Ég kann vel að meta það að hér sé fullum fetum talað um sjálfstætt og fullvalda ríki, sem Úkraína er og verður, og geti gengið sem slíkt inn í Evrópusambandið.

En það er líka rétt að við veltum því fyrir okkur, af því að talað er um það í greinargerðinni, að umhverfi okkar í öryggis- og varnarmálum hafi stökkbreyst og það er rétt. Það eru fleiri sem eru á þeirri skoðun að hér hafi orðið það miklar breytingar að ýmsar þjóðir, margar þjóðir, hafa gripið til ýmiss konar aðgerða til að bregðast við og er auðvitað nærtækast að nefna tvö Norðurlandanna, Svía, sem standa okkur næst, sem hafa gengið í Evrópusambandið, og síðan Finna. Það eru gríðarlega mikil tíðindi að þessar þjóðir, sem lengi hafa haldið í það að vera hlutlausar, hafa ákveðið að stíga þetta skref og það stíga þau ekki af léttúð heldur vegna þess að þau skynja að heimsmyndin er að breytast.

Í morgun sendi forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá sér tilkynningu eða yfirlýsingu í tilefni þess að leiðtogaráðið er að hittast; ég held það sé á morgun frekar en hinn daginn. Hann sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir — og þetta er í aðalatriðum lausleg þýðing á ummælum hans, ég ætla að halda mig við það að þingmálið er íslenska. Þar segir hann, með þeim fyrirvara að um er að ræða lauslega þýðingu mína: Rússland er alvarleg hernaðarleg ógn við Evrópu og öryggi í heiminum almennt. Bregðist Evrópusambandið ekki rétt við og styðji Úkraínu með fullnægjandi hætti til að stöðva Rússa verðum við næst — hann vísar þá til Evrópusambandsins eða Evrópulandanna á meginlandinu. Við verðum þess vegna að setja í varnargír og búa okkur efnahagslega undir stríð. Það er orðið tímabært að við tökum ábyrgð á eigin öryggi. Við getum ekki lengur reitt okkur á stuðning annarra né verið háð úrslitum kosninga í Bandaríkjunum eða annars staðar. Við verðum að efla getu okkar til að verja vestræn lýðræðisgildi, bæði okkar vegna og fyrir Úkraínu. Öflugri Evrópa mun að þessu leyti efla NATO og þar með sameiginlegar varnir. Það er ögurstund í sögu okkar. Evrópa verður að haga viðbúnaði sínum í samræmi við þá miklu ógn sem við blasir. Hér þarf að styrkja stjórn mála til að fylkja fólki, fyrirtækjum og ríkisstjórnum um nýja vitund og viðbúnað fyrir öflugri varnir.

Þetta eru býsna stór og mikil orð sem þarna voru látin falla og það leiðir hugann að stöðu okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna, samstarfinu innan NATO, samstarfinu innan Evrópu og okkar stöðu. Við höfum lengi verið þeirrar skoðunar hér sem þjóð að aðildin að NATO sé okkur mikilvæg og undir það ber að taka. Við höfum líka alltaf sagt að samband okkar við Bandaríkin sé sérstakt og það hefur vissulega verið það á köflum. En nú er Evrópa að vakna upp við þann vonda draum, þá martröð, að á Bandaríkin er ekki lengur að treysta. Þess vegna ætla þau ríki að breyta til og reyna að verða sjálfstæðari í því að geta haldið uppi eðlilegum vörnum fyrir Evrópu og staðið gegn því að atburðir eins og þeir sem nú standa yfir í Úkraínu geti endurtekið sig. Og reyndar vilja þau leggja sitt af mörkum til þess að hrinda þeirri árás.

Ég held að þetta, ásamt mörgu öðru, kalli á að við Íslendingar förum að horfa á þessi mál öll og þessar miklu breytingar sem vissulega eru hörmulegar í alla staði — maður á erfitt með að skilja og setja sig í spor fólks í Úkraínu sem býr við þau ósköp að Rússar geri innrás í landið og eiri engu og hið gríðarlega mikla tjón sem er að verða á öllum sviðum. Ég held að þetta ætti að vera okkur hvatning til að taka í alvöru umræðuna um það hvort við eigum ekki að skoða í fullri alvöru og einlægni hvort ekki sé orðið tímabært að við setjum þetta lóð á þær vogarskálar að framtíð okkar Íslendinga sé best borgið í sem nánustu samstarfi við Evrópuþjóðir og þar með að ganga í Evrópusambandið.